Orkuveita Reykjavíkur sýnir klærnar

Orkuveita Reykjavíkur (OR) er í eigu almennings. Það veitir yl og hlýju til þúsunda heimila og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu, auk Borgarfjarðar og víðar.  Það tók okkur áratugi að byggja upp þetta góða fyrirtæki. Það er í eigu almannennings til þess að tryggja almannahagsmuni. Grundvallar mannréttindi að halda sér hlýjum á köldum vetrum og tryggja hreinlæti og vellíðan.

Þetta er fagurt bakland en því miður er skuggahlið á starfsseminni sem lýsir sér þannig.

Ef einstaklingar greiða ekki á réttum tíma, sendir Orkuveitan skurðgröfu heim til viðkomandi, grefur upp hitaveituleiðsluna, skrúfar fyrir heita vatnið og ekur svo í burtu með hroka, svívirðingar og kaldar kveðjur!

Þetta er svo sorgleg staðreynd að hvorki tár né mannlegur máttur skilur þessa framkomu.

Það eru bara skrýmsli sem haga sér svona!

Ef einhver vottur af mannlegri hegðun, skynsemi og skilningi á aðstæðum í þjóðfélaginu væri til staðar myndi OR gera eftirfarandi.

  • Opna ráðgjafastofu og þjónustuborð fyrir fólk í vanda með greiðslu hita.
    Ekki þarf að bæta við fólki hjá OR - eingöngu innleiða nýja mannlega hugsun.
  • Stöðva allar lokanir á vatni á meðan við erum að vinna okkur út úr mestu efnahagslægð íslandssögunnar og meðan bankar, hið opinbera, ráðgjafastofur og almenningur er að vinna sig út úr kreppunni - SAMAN.
  • Reyna gera ALLT sem mögulegt væri að koma á móts við erfiða stöðu margra heimila og fyrirtækja.
    • Meðal annars að frysta núverandi skuldir og gera greiðsluáætlun um næstu mánuði.
    • Ef sú áætlun gengur ekki, þá gera aðra áætlun og finna lausnir þangað til við vinnum okkur út úr ástandinu.
    • Margir gætu greitt hluta af hitanum en ekki allt og það er betra en ekkert.
    • Það er ofbeldi að grafa upp leiðslu og valda miklum skaða án þess að hringja á undan sér!
  • Þó OR fengi ekki nema hluta þess vatns greitt sem heldur hita á einu heimili til skamms tíma er viðbótarkostnaður OR við að láta renna í gegn nokkra lítra vart mælanlegur og ekki til skaða fyrir OR hvorki til skamms né lengri tíma.

Skaðinn sem heimili og fyrirtæki verða fyrir þegar lokað er fyrir heita vatnið með ofbeldi er gríðarlegur. Lokun á vatni á húsnæði í frosti getur verið skaði uppá margar milljónir og getur gereyðilagt heimili, húsnæði og búslóðir. Kostnaðarverð OR vegna þessa og tap er eingöngu brotabrot af skaðanum. Skaðinn sem OR veldur er gríðarlegur miðað við þá litlu hagsmuni sem verið er að vernda og mætti koma í veg fyrir með vott af mannlegri hegðun og reisn. Samfélagslegri ábyrgð.

Það þyrfti einn mann til þess að breyta þessu ástandi. Með einu skjali, einum fundi, einni klukkustund. 

Ef ekki munu hundruðir einstaklinga verða fyrir miklum skaða, til lengri tíma. Allt vegna þess að hroki, valdníðsla og hegðun skrímslisins sigraði hið fallega í manninum.

 

Bergur Ólafsson


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband