24.1.2008 | 15:40
Virkt lýðræði, nú sem fyrr
Ein þekktasta yfirlýsing lýðræðis í landinu er án efa ,,Vér mótmælum allir sem kennd er við Jón Sigurðsson en sem þingmenn okkar mæltu árið 1851 vegna lögleysu og yfirgangs dana í okkar garð. Álíka yfirlýsingar voru viðhafðar á pöllum ráðhússins í morgun þegar ungliðar félagshyggjuaflanna sættu sig ekki við að 100 daga valdabrölt Dags og Svandísar með fulltingi Björns Inga rynni út í sandinn. Ekki var um lögleysu eða yfirgang að ræða að þessu sinni heldur fullkomlega eðlileg vinnubrögð lýðræðisins. Niðurstöður lýðræðislegra kosninga veittu borgarfulltrúum með 52% atkvæða til að vinna að þeim málefnum sem þeim fannst brýnast að vinna að og voru kosin til. Það er beinlínis ánægjulegt að verða vitni að því að lýðræðið er virkt í okkar samfélagi og að kjörnir fulltrúar hafi nauðsynlegt aðhald og viti að fylgst er með verkefnum þeirra og ákvörðunum. Mótmælin á pöllunum í morgun eru því virðingarverð því þau voru friðsamleg og málefnaleg. Við höfum einfaldlega rétt á að lýsa skoðunum okkar og þó að fundarsköp hafi verið brotin, hafa þau minna vægi en mikilvægi þess að skoðanir fólks komist á framfæri. Fögnum því að lýðræðið er virkt og óskum jafnframt nýjum réttkjörnum borgarstjórnarmeirihluta velfarnaðar í starfi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.