20.1.2011 | 14:28
Orkuveita Reykjavíkur sýnir klærnar
Orkuveita Reykjavíkur (OR) er í eigu almennings. Það veitir yl og hlýju til þúsunda heimila og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu, auk Borgarfjarðar og víðar. Það tók okkur áratugi að byggja upp þetta góða fyrirtæki. Það er í eigu almannennings til þess að tryggja almannahagsmuni. Grundvallar mannréttindi að halda sér hlýjum á köldum vetrum og tryggja hreinlæti og vellíðan.
Þetta er fagurt bakland en því miður er skuggahlið á starfsseminni sem lýsir sér þannig.
Ef einstaklingar greiða ekki á réttum tíma, sendir Orkuveitan skurðgröfu heim til viðkomandi, grefur upp hitaveituleiðsluna, skrúfar fyrir heita vatnið og ekur svo í burtu með hroka, svívirðingar og kaldar kveðjur!
Þetta er svo sorgleg staðreynd að hvorki tár né mannlegur máttur skilur þessa framkomu.
Það eru bara skrýmsli sem haga sér svona!
Ef einhver vottur af mannlegri hegðun, skynsemi og skilningi á aðstæðum í þjóðfélaginu væri til staðar myndi OR gera eftirfarandi.
- Opna ráðgjafastofu og þjónustuborð fyrir fólk í vanda með greiðslu hita.
Ekki þarf að bæta við fólki hjá OR - eingöngu innleiða nýja mannlega hugsun. - Stöðva allar lokanir á vatni á meðan við erum að vinna okkur út úr mestu efnahagslægð íslandssögunnar og meðan bankar, hið opinbera, ráðgjafastofur og almenningur er að vinna sig út úr kreppunni - SAMAN.
- Reyna gera ALLT sem mögulegt væri að koma á móts við erfiða stöðu margra heimila og fyrirtækja.
- Meðal annars að frysta núverandi skuldir og gera greiðsluáætlun um næstu mánuði.
- Ef sú áætlun gengur ekki, þá gera aðra áætlun og finna lausnir þangað til við vinnum okkur út úr ástandinu.
- Margir gætu greitt hluta af hitanum en ekki allt og það er betra en ekkert.
- Það er ofbeldi að grafa upp leiðslu og valda miklum skaða án þess að hringja á undan sér!
- Þó OR fengi ekki nema hluta þess vatns greitt sem heldur hita á einu heimili til skamms tíma er viðbótarkostnaður OR við að láta renna í gegn nokkra lítra vart mælanlegur og ekki til skaða fyrir OR hvorki til skamms né lengri tíma.
Skaðinn sem heimili og fyrirtæki verða fyrir þegar lokað er fyrir heita vatnið með ofbeldi er gríðarlegur. Lokun á vatni á húsnæði í frosti getur verið skaði uppá margar milljónir og getur gereyðilagt heimili, húsnæði og búslóðir. Kostnaðarverð OR vegna þessa og tap er eingöngu brotabrot af skaðanum. Skaðinn sem OR veldur er gríðarlegur miðað við þá litlu hagsmuni sem verið er að vernda og mætti koma í veg fyrir með vott af mannlegri hegðun og reisn. Samfélagslegri ábyrgð.
Það þyrfti einn mann til þess að breyta þessu ástandi. Með einu skjali, einum fundi, einni klukkustund.
Ef ekki munu hundruðir einstaklinga verða fyrir miklum skaða, til lengri tíma. Allt vegna þess að hroki, valdníðsla og hegðun skrímslisins sigraði hið fallega í manninum.
Bergur Ólafsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2011 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2010 | 22:57
Icelandair er eyja - án tengingar við umheiminn
Þegar gosið hófst í Eyjafjallajökli sköpuðust aðstæður sem komu mörgum á óvart. Öskufall frá eldgosinu var talið það hættulegt flugvélum að flestir flugvellir í norðurevrópu lokuðust á skömmum tíma. Um 16.000 flugvélar fengu ekki að fara í loftið og milljónir flugfarþega urðu strandaglópar. Hjá Icelandair voru mörg þúsund manns fastir á meginlandinu. Farþegar á leið til landsins komust ekki heim.
Við þessar aðstæður hefði maður ætlað að Icelandair hefði virkjað viðbragðsáætlun sem gerði þeim kleift að samhæfa og veita stöðugt upplýsingar um stöðu mála til sinna viðskiptavina.
Raunin varð sú að fyrstu 3 sólarhringana var nánast engar upplýsingar að fá frá Icelandair. Að auki voru þær upplýsingar sem bárust ekki réttar og ekki í neinu samhengi við raunverulega stöðu mála.
Þeir nýttu ekki heimasíður til að miðla upplýsingum. Þeir nýttu ekki SMS skilaboð en þeir hafa gsm símann hjá nánast öllum viðskiptavinum sínum. Þeir nýttu ekki Facebook, Twitter eða aðra miðla sem mjög auðvelt er að virkja.
Alvarlegast af öllu var að símaborð þeirra var eingöngu opið frá 9-17 að íslenskum tíma og það var lokað fyrstu helgina sem gosið var! Ef það hefur verið opið...svaraði ekki síminn!
Þetta háttarlag Icelandair er ámælisvert. Fyrirtæki af þessari stærðargráðu og með jafn mikið af hæfu fólki ætti að vera betur stjórnað. Þetta er fyrst og fremst vandamál stjórnenda. Þessar aðstæður skapast vegna þess að engar viðbragðsáætlanir eru til sem gera ráð fyrir krísu. Ef þær áætlanir eru til þá eru þær ónothæfar.
Í meistarnámi mínu í PR var hluti af námsefninu krísuáætlanir SAS flugfélagsins. Samkvæmt þeim eru til viðbragðsáætlanir fyrir flestu sem getur komið uppá í flugrekstri. Algengt dæmi í þessum fræðum er þegar flugvél hrapar sem dæmi. Þær aðstæður kalla á viðbragðsáætlun sem virkjar ákveðin teymi sem bera ábyrgð á samskiptum og stjórnun þess atviks.
Miðað við reynslu mína af Icelandair vegna þeirrar krísu sem varð þegar þúsundir farþega urðu strandaglópar vegna gossins óska ég þess að þeir lendi ekki í því að flugvél hrapi og þeir þurfi að hafa samband við stjórnvöld, fjölskyldur og ættingja, farþega og blöðin sem dæmi. Það tæki þá nokkra daga samkvæmt núverandi skipulagi.
Ég skora á Icelandair að bæta upplýsingaflæði sitt við þessar aðstæður sem aðrar. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að hafa mörg þúsund óupplýsta landa sína og aðra ferðamenn á flugvöllum og hótelum um alla Evrópu.
Meira síðar,
Bergur Ólafsson
ps.
Lauk á seinasta ári námi á meistarastigi í PR ledelse og strategisk kommunikasjon við BI Oslo
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2009 | 15:21
Trúnaðarskjöl Icesave á almennu farrými
Það var að kvöldi 2. september sem farþegar á almennu farrými hjá Icelandair urðu vitni að því að nokkrir af helstu samningamönnum Íslands voru á leið heim frá Kaupmannahöfn eftir stormasaman fund með fulltrúum ríkisstjórna Hollands og Bretlands. Þeir voru alvörugefnir og ekki laust við að verkefni þeirra væru sveipuð dulúð.
Þeir voru tveir félagarnir um borð, almennir farþegar, sem báru saman bækur sínar um atburði hvors annars en ekki síst höfðu þeir áhuga á að vita stöðuna á hinum ýmsu verkefnum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Annar þeirra hafði á orði að forvitnilegt væri að vita hver viðbrögð vinaþjóða okkar, Hollendinga og Breta væru við þá nýsamþykktum lögum alþingis um Icesave málið. Þeir gerðu sér báðir grein fyrir alvarleika málsins því eins og margir þingmenn hafa bent á hangir margt á spýtunni.
Ef ekki semst um Icesave gæti ríkisstjórnin fallið því þetta er stærsta mál sem komið hefur inná borð nokkurrar ríkissjórnar frá upphafi. Lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verða ekki afgreidd nema samið verði um Icesave. Lán frá vinaþjóðum okkar á norðurlöndum verða ekki afgreidd. Þýðing þess að lán verði ekki afgreidd hefur áhrif á lánshæfismat ríkis og stærri fyrirtækja landsins, gengi krónunnar, verðbólgustig, gjaldeyrishöft, líf og dauða þúsunda fyrirtækja, umsókn okkar að ESB, framtíð atvinnu þúsunda íslendinga svo fátt eitt sé nefnt. Icesave málið er dauðans alvara.
Það kom þeim því nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar sessunautur þeirra í vélinni, Indriði nokkur Þorláksson dró fartölvu sína upp úr töskunni og byrjaði að skrifa. Beint fyrir framan augun á þeim með stóru letri og áberandi.
2. september 2009.
,,Til Fjármálaráðherra Steingríms J Sigfússonar frá Indriða H Þorlákssyni
Minnisblað um niðurstöðu viðræðna milli aðila x fyrir Íslands hönd og aðila z fyrir hönd Bretlands og Hollands."
Síðan hélt hann áfram að skrifa í smáatriðum hverjir voru á fundinum, hvað var rætt, hver sagði hvað, hverjar voru skoðanir fulltrúa ríkjanna, s.s álit breta um að þeir myndu aldrei sætta sig við að heildarskuldin yrði ekki greidd og svo framvegis. Þeim sýndist á þessu skjali ekki vera nokkur vafi á því að fulltrúa samninganefnda Breta og Hollendinga samþykktu ekki fyrirvara alþingis!. Skjalið sem lá þarna fyrir fólki eins og dagblað á kaffihúsi voru svör Breta og Hollendinga við fyrirvörum alþingis!
Ekki er loku fyrir það skotið að upplifun þeirra hafi verið sérstök. Þeir spurðu sjálfa sig hvort eðlilegt væri að aðalsamningamaður landsins í þessari alvarlegu alþjóðadeilu skyldi sitja á almennu farrými með fartölvuna fyrir framan sig og skrifa með stóru auðlesanlegu letri og ekki gera tilaun til að skýla því hvað hann væri að gera eða hvað hann væri að skrifa um. Auðvitað mætti segja að fólk ætti ekki að vera rýna í hvað aðrir eru að lesa eða skrifa á almennu farrými, fólk ætti að líta undan en þegar maðurinn er við hliðina á þér eða fyrir framan þig í þröngri flugvél er varla annað hægt en að sjá hvað fólk er að gera, hvort sem er að lesa dagblað eða skrifa með stórum stöfum á tölvuskjá.
Það sem síðar gerðist var ekki minna athyglivert. Strax daginn eftir heyrðist í fréttum RÚV að ENGIN VIÐBRÖGÐ VÆRU ENN KOMIN VEGNA ICESAVE. Nú, hugsuðu þeir og mundu eftir að deginum áður höfðu þeir lesið orðrétt viðbrögð Hollendinga og Breta á almennu farrými Icelandair. Þeir hugsuðu með sér, getur verið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fari með ósannindi eða hreinlega ljúgi almenningi og þingi um niðurstöðurnar. Þeir ákváðu að bíða og sjá hve lengi sá leikur gengi.
Nánast á hverjum einasta degi, þriðja, fjórða, fimmta, sjötta, sjöunda, áttunda, níunda og tíunda er allra frétta varist, engin viðbrögð segir ríkisstjórnin.
Þann 11. september
Bíða viðbragða við Icesave-lögunum
,,Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að mjög lítið sé að frétta af viðbrögðum Breta og Hollendinga við Icesave-lögunum. Stjórnvöld bíði frekari vísbendinga um í hvað stefni en þær hafi látið á sér standa!"
Haft var bæði eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J Sigfússýni fjármálaráðherra að engin viðbrögð væru enn komin fram. Enn segir í sömu frétt: ,,Jóhanna segir brýnt að málin fari að skýrast á allra næstu dögum. Fyrirgreiðslan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðunum bíði vegna þessa. Hún vonast til þess að svör berist fyrir næstu mánaðamót". Þetta segir Jóhanna þrátt fyrir að rúm vika sé síðan viðbrögð höfðu borist heim.!
Embættismenn í stjórnkerfinu tóku þátt í feluleiknum og lýginni. Sem dæmi segir upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins Einar Karl þann 15 september : Ég fæ það ekki staðfest hér að formleg viðbrögð hafi borist," Þarna sýnir hann klæki og notar orðið ,,formleg viðbrögð" en fréttamaður kveikir ekki á perunni og lætur hann afskiptalausan.
Þann 16 september fer að hvisast út að einhver viðbrögð hafi borist og daginn eftir er haft eftir þingflokksformanni Samfylkingarinnar Björgvin G. Sigurðsyni sem ,,segir að í raun sé lítið sem standi útaf í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga í Icesavemálinu"
Þann 17 september hefst umræða milli stjórnarandstöðu og stjórnarliða um að fara verði með málið sem algeran trúnað að beiðni Hollendinga og Breta. Þingmenn voru sakaðir um trúnaðarbrest og Jóhanna hótaði breyttum vinnubrögðum í framhaldinu við stjórn landsins því fólk héldi ekki trúnað vegna þessa máls. Þegar þetta var sagt voru farþegar á almennu farrými Icelandair búnir að liggja með þessar upplýsingar í meira en hálfan mánuð.
Þann 18 september sá sjálfstæðisflokkurinn ástæðu til að senda út fréttatilkynngu þar sem segir meðal annars: ,,Þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ber Sjálfstæðismönnum það á brýn að hafa rofið trúnað varðandi viðbrögð Breta og Hollendinga í Icesavemálinu, þá er hún trú gamla máltækinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu."
Í sömu fréttatilkynningu segir einnig og haft var eftir forsætisráðherra og fjármálaráðherra ,sem tjáðu sig um málið og lýstu yfir ánægju sinni með viðbrögð breskra og hollenskra stjórnvalda."
Þann 19 september eða 17 dögum eftir að viðbrögð bárust vegna Icesave ,,Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hitti sendiherra Breta og Hollendinga í gær og ræddi áframhald Icesave-málsins."
Í dag þann 23 september eða 20 dögum eftir að ljóst er að svör bárust frá Bretum og Hollendingum er ekki búið að komast til botns í þessum viðræðum. Það er áhyggjuefni.
Tvennt er hinsvegar umhugsunarvert.
Eiga æðstu embættismenn ríkisins í einu alvarlegasta máli sem fjallað hefur verið um og mætti flokka sem þjóðaröryggismál að umgangast málið með þeim hætti sem Indriði H Þorláksson gerir. ?
Er það eðlilegt að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og æðstu embættismenn þjóðarinnar ,,ljúgi" til um það til almennings og þings að engin viðbrögð séu komin í þessu alvarlega máli svo vikum skipti þegar ljóst er að það er ekki sannleikanum samkvæmt.
Svari hver fyrir sig.
Þeir sem oft eru á ferðinni vita að almennt farrými hefur merkinguna M á Boarding Pass. Gárungarnir kalla því farrýmið Monkey Class til aðgreiningar frá Saga Class. Kannski stendur Monkey Class undir nafni eftir allt saman.
ps. þeir félagar tóku bæði myndir og video af Indriða Þorlákssyni í vélinni því þeir vissu að ekki nokkur maður myndi trúa þessari frásögn. Ein myndanna er látin fylgja þessari færslu.
Margt hangir á Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2009 | 18:00
Að taka þátt í að róa þessum bát
Pælingar dagsins á leið úr skólanum...
Það er að koma haust...siðustu leifar sumarsins eruþó ennþá til staðar... ekki er búið að fjarlægja bátana úr höfninni við Akerbrygge.. það er ennþá nokkuð heitt en búið er að raða upp stólunum upp á útikaffihúsunum og skvaldrið, hlátrasköllin og mannfólkinu hefur fækkað. Þegar ég geng eftir bryggjunni og virði fyrir mér bátana sem liggja hér við bryggju verður mér hugsað til þess að ég er staddur í einu ríkasta landi veraldar.
Hér liggja bátar sem á alla mælikvarða eru þeir vönduðustu sem hægt er að komast yfir á jarðríki. Í stað verksmiðjuhúsa sem hér áður stóðu hér við bryggjuna hefur verið byggt hverfi húsa sem minna allra helst á listaverk. Húsagerðarlist sem er nýtískuleg en jafnframt hefðbundinn.. það er fólk þarna inni sem undirbýr kvöldmat. Það er fiskisúpa í matinn.
Mér verður hugsað til þess hvaða líf býður manns í nánustuframtið. Það er breytt landslag á landinu sem sleit með manni barnskónum. Heimur og væntingar sem voru eru ekkilengur tilstaðar. Gerspillt samfélag til innstu róta.
Menningin sem maður hafði væntingar til og gildismatið sem maður var alin upp við eru í niðurfallinu. Við höfum skip fullt af rottum sem hafa nagað gat á skipskrokkinn og þær eru ennþá að. Þær stærstu hafa stokkð frá borði en meðhjálpararnir eru ennþá í vinnu. Sumir við að redda eigin skinni en aðrir hafa ekki séð ljósið.
Búið er að éta allan mat frá áhöfninni en veiðarfæri liggja á víð og dreif. Sjóræningar hafa komið auga á flakið og renna hýru auga til skipskokksins.
Maður veltir fyrir sér hvort maður hafi val um hvar maður vilji vera. I hvernig samfélagi maður vilji taka þátt í. Gerspilltu, skuldugu og fátæku af mannlegum gildum til næstu áratuga ? eða... samfélagi sem hefur til brunns að bera gildi sem byggja á heiðarleika, fjölskyldugildum, einkaframtaki en í leiðinni samhjálp.
Þetta er land tækifæranna. Hér fæst þó ekkert ókeypis. Þú hefur tækifæri til að taka þátt í að róa þessum bát þar sem stefnan er mörkuð fyrir löngu siðan. Stefna sem Gro Harlem mótaði.. með hugsjónum sem byggðu á fjölskyldugildum. Það var þó á sama tíma og menn gerðu sér grein fyrir að skylda ríkisins var að sjá til þess að fyrirtækin hefðu aðgang að fjármagni, gætu keppt samkeppnisgrundvelli og framleiðslufyrirtæki gætu selt framleiðslu sína erlendis.
Þetta var þjóð sem ætlaði að keppa á alþjóðlegum mörkuðum og nýta til þess dugnað, útsjónarsemi og þau tæki sem gerðu fyrirtækin sérstök... fólkið.
Ætli landið okkar sé of lítið til að þar geti þrifist nútíma mannlíf. Erum við bara of fá. Er hægt að nota sömu rök á ísland og ísland sjálft notar á fámenna staði úti á landi. Þið eruð of fá til að þarna sé hægt að halda uppi mannlegri þjónustu. Þið hafið ekki efni á að byggja upp samfélag sem uppfyllir kröfur næstu kynslóða.. Ísland er gott hráefni í sumarleyfisstað. Þar er hægt að veiða fisk og skjóta hreindýr að sumarlagi en um miðjan september hefur siðasta flugvélin sig á loft. ..eins og í smábæ í Grænlandi. Samfélagið getur ekki framleitt nóg til að geta staðið undir þeirri þjónustu sem vænst er af komandi kynslóðum.
Þegar kemur að vali hvers og eins dettur manni í hug að hvert okkar er sinn eigin gæfusmiður. Við erum alltaf í eigin persónu við gatnamótin. Það er hægt að beygja til hægri vinstri eða halda beint áfram. Þitt er valið. Þú ert þinn eigin gæfusmiður. Þú getur látið slag standa... stökktu ef þú hefur þor og metnað. Framrúðan er stór... baksýnisspegillin er lítill. Framtíðin er björt þegar þú hefur val.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2009 | 10:42
Orðalag fréttatilkynningar MP
Það er áhugavert að skoða notkun íslenskunnar í fréttatilkynningum um hin ýmsu spillingarmál sem fljóta núna um göturnar eins og lækir í góðri vorrigningu.
Dæmin eru mörg, það sem ég hnaut um í yfirlýsingu skákmannsins Margeirs Péturssonar og aðaleiganda MP banka var orðalagið: ,,félögin Tæknisetur Arkea og Exeter Holdings eru MP Banka með öllu óviðkomandi"
Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta rétt, þvs engin formleg eignatengsl eru á milli félaganna, en hann hefði kannski átt að geta þess að hann lánaði þessum félögum í miðri bankakreppu þar sem aðaleigandinn Exeter er einkavinur hans, skákfélagi og fyrrum stjórnarmaður í MP banka 1.100.000.000 krónur.
Það eru auðvitað engin formleg opinber tengsl þarna á milli, ekki frekar en á milli vatns í vatnsflösku.
Ósannar staðhæfingar um MP banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2009 | 09:56
Davíð Oddsson – Hafðu hljóð !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2009 | 22:58
Almenni Lífeyrissjóðurinn - rúin trausti ?
Ágæti sjóðfélagi,
Þannig hefst ávarp á yfirliti um sjóðsstöðu mína í Almenna lífeyrissjóðnum sem staðsett er á 4. hæðinni í húsnæði Íslandsbanka á Kirkjusandi.
Á yfirlitinu kemur fram að ávöxtun sjóðsins hafi verið mínus 24,3% á seinasta ári og mínus 2,2% þegar þeir hafa dreift ávöxtuninni á þrjú ár. Þetta þýðir í mínu tilfelli að þeim tókst að ræna af mér rúmum 2,3 milljónum króna á einu ári. Þá reikna ég ekki með að ef þeir hefðu rekið sjóðinn af ábyrgð og þekkingu hefði jafnvel mátt búast við jákvæðri ávöxtun en ekki tapi þannig að tap mitt er í raun meira en að ofan greinir. Þeir sjálfir reikna með um 3,5% ávöxtun til lengri tíma. Í mínum huga er þetta þjófnaður og gerandinn er glæpamaður.
Þegar haft er í huga hvers eðlis lífeyrissjóður er, er það með eindæmum hvernig stjórnendum og umsjónaraðilum þessa ,,Glitnis" sjóðs tókst að tapa svona miklu fé á jafn skömmum tíma. Það er ekki hægt að mínu áliti nema vegna þess að stjórnendur sjóðsins hljóta að vera gersamlega vanhæfir til að stjórna sjóðnum. Þeir hafa að mínu áliti valið glæfralegar leiðir við fjárfestingar sínar og ekki gætt þess að lífeyrissjóður er langtímasparnaður sem leitar hámarksöryggis í stað hámarksáhættu. Lífeyrissjóður á ekki að vera spilavíti fyrir áhættufíkla í vafasömum guttaklúbbum.
Það er eiginlega grátlegt að sjá hverjir skrifa undir yfirlitið en þeir eru kallaðir ,,Ráðgjafar Almenna lífeyrissjóðsins."
Í ótrúlegu viðtali við sjálfan sig í sínu eigin fréttabréfi útskýrir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins að erlendir lífeyrissjóðir hafi einnig tapað fé og vitnar í bandarískt eignastýringarfyrirtæki með svipaða fjárfestinarstefnu og Almenni hefur. Þannig er komin skýring á því að hann hafi nú gert allt rétt og eins og annar ,,sambærilegur aðili". Þessi útskýring ætti að fara í kennslubækur um vanhæfni stjórnenda og hve langt þeir geta seilst til að útskýra afglöp sín. Þetta minnir meira á innihaldslausan pólitískan frasa en ekki ábyrgan framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs.
Í sama fréttabréfi er sagt að Almenni lífeyrissjóðurinn sé traustur lífeyrissjóður sem hentar þeim sem geta valið lífeyrissjóð og vilja greiða viðbótariðgjöld til að auka ráðstöfunartekjur sínar á eftirlaunaárunum. Ég segi bara að fyrir 2,3 milljónir framreiknaðar í 20 ár,gæti ég farið í heimsreisu í marga mánuði, tryggt einhverjum verr settum skólavist eða haldið persónulega lífinu í tugum barna. Almenni lífeyrissjóðurinn er í mínum augum vanhæft glæpafyrirtæki sem fólk ætti að forðast eins og heitan eldinn á meðan núverandi stjórnendur sitja þar við völd.
Það er tekið fram í yfirlitinu að hafi maður einhverjar athugasemdir eigi maður að hafa samband við Íslandsbanka (ex. Glitni) eignastýringu. Ef margir stjórnmálamenn eru rúnir trausti þá er þeir eins og kórdrengir við hlið eignastýringardeildar (gamla) Glitnis. Ráðgjafar sem bjóða raunávöxtun á einu ári -34,9% eru menn sem geta ekki verið stoltir af vinnu sinni. Nema sá grunur minn reynist réttur að þeir hafi einfaldlega verið að vinna vinnuna sína, fjárfest í þeim hlutabréfum og skuldabréfum sem eigendur bankans skipuðu þeim að fjárfesta í.
Í gögnum Almenna lífeyrissjóðsins er ekki að finna trúverðugar skýringar á gríðarlegu tapi sjósðins, enda væntir maður kannski ekki trúverðugleika frá stjórnendum sjóðsins. Þeir eru í vörn, kunna ekki að skammast sín eða taka afleiðingum þess að tapa þúsundum milljóna fyrir fólki.
Það er skýlaus krafa mín sem sjóðfélaga að stjórn og stjórnendur Almenna lífeyrissjóðsins segi tafarlaust af sér enda geta þeir ekki notið mikils trausts með öðrum eins vinnubrögðum. Þeir eru í mínum augum vanhæfir, ábyrgðarlausir og rúnir trausti.
9.3.2009 | 19:50
Leið okkar í gegnum lífið - hugvekja á Gilwell
Verkefni okkar á jörðinni eru margvísleg. Allt frá þeim tíma er við fæðumst ósjálfbjarga kornabörn þar til við önnumst okkar eigin börn og barnabörn erum við hlekkur í afar verðmætri keðju lífs sem hefur meðal annars þann tilgang að skapa öruggt og hamingjusamt umhverfi þeirra sem á jörðinni búa.
Við fæðingu hljótum við í arf ýmsa eiginleika foreldra okkar og forfeðra sem ásamt fræðslu og þáttöku í lífinu gerir okkur að því sem við stöndum fyrir, það sem við erum og það sem gerir okkur að manneskjum á meðal manneskja.
Vegur okkar í byrjun ferðar um lífið er eins og farvegur vatns niður langan og djúpan dal. Efst í dalnum erumvið lítil lækjarspræna, lítil lind sem kemur upp úr iðrum jarðar. Tær og hrein vatnslind sem nærir allt umhverfi sitt. Lind sannleika, efnis og lífsgæða. Hvort sem það er vegna fegurðar eða eftirspurnar eftir meira vatni fyllist lindin nokkuð fljótt af vatni. Hún stækkar og dafnar og loks flæðir hún niður dalinn.
Á leið sinni niður dalinn er hún ekki lengur ein á ferð heldur eru aðrar vatnslindir í dalnum sem einnig eru á leið til sjávar. Á ferðalaginu niður dalinn verður lindin okkar að á og áin fljótt að stóru fljóti. Allar lindir dalsins hafa eiginleika sem geta blandast saman við ánna. Eiginleika kærleika og visku en einnig eiginleika sem uppfylla ekki væntingar okkar um að koma til sjávar með næringu og áburð og betra líf.
Ólíkt vatni sem rennur um árfaveg höfum við sem manneskjur val um að tileinka okkur góða eiginleika þeirra sem við rekumst á í lífinu. Við höfum val um að breyta. Við höfum val um að breyta rétt og rangt. Við höfum allar upplýsingar um hvaða væntingar lífið og samfélagið gerir til okkar og við ættum einnig að gera okkur grein fyrir því hvaða væntingar við höfum til lífsins.
Á ákveðnu tímabili í lífi okkar nemum við og tileinkum við okkur þá hegðun og það gildismat sem gerir okkur hamingjusöm. Það er á þessu tímabili þegar við breytumst úr því að vera börn og verðum unglingar og hálfstólpaðir einstaklingar sem miklu máli skiptir í lífi okkar að breyta rétt, hafa góðar fyrirmyndir og skilja hvað er rétt og hvað er rangt. Hvað er æskileg hegðun og hvað er óæskileg hegðun. Hvað er fallegt að gera og litar lífið hamingju og hvað ekki.
Að finna fegurðina að veita og gefa af sér. Að njóta hamingju og vera elskuð. Það er á þessu tímabili sem gott er að leita í skátaheitið og boðskap skátahreyfingarinnar.
Það er nákvæmlega á vaxtar og mótunarskeiði hvers barns sem mikilvægast er að geta vísað veginn að betra lífi. Lífi þar sem umhyggja og virðing gagnvart náunganum er grundvöllur góðra samskipta. Þar sem umhyggja og virðing gagnvart jörðinni sem við búum er það mikil að við tökum tillit til komandi kynslóða.
Förum vel með og berum virðingu fyrir því að við erum ekki eina fólkið sem erfir jörðina. Við erum ekki ein heldur erum við samfélag. Við erum heldur ekki seinasta kynslóðin á jörðinni heldur erum við meðal fyrstu íbúa jarðarinnar.
Það er þess vegna sem Baden Powell kveður svo skýrt að orði að skila jörðinni í jafngóðu eða betra ástandi en við tókum við henni.
Á mótunarskeiði hvers barns er gott að hafa aðgang að ,,leikreglum sem allir geta farið eftir án þess að frelsi hvers og eins skerðist. Leikreglur sem hafa tilgang um betra líf sem hver og einn getur tamið sér án þess að vera þvingaður til þess heldur temur hver og einn sér þessar lífsreglur af virðingu við sjáanlegum árangri þeirra. Og sá árangur þarf ekki að vera sjáanlegur heldur er nóg að hann sé góð tilfinning. Það er því hver og einn sem velur að lifa eftir boðskap skátaheitisins.
Hver og einn einstaklingur getur nýtt sér boðskap skátaheitsins og jafnframt boðskap Baden Powells til að einskorða líf sitt við drengskap. Einskorða líf sitt að því að njóta þess besta í manninum. Aðeins þá getum við lagst sátt á koddann að kveldi.
Það er reynsla mín að skátastarf hefur verið mér leiðarljós. Skátastarfið hefur kennt mér að meta betur kosti hverrar manneskju og dýpkað skilning minn á samfélaginu. Skátastarfið með skátaheitið að leiðarljósi hefur gert mér auðveldara að taka ákvarðanir og velja leiðir í lífinu.
Skátaheitið og skátalögin eru mér sem reglustika og mælikvarði á hið góða í manninum. Ef við fáum það tækifæri að upplifa, læra og meta það góða í manninum eru okkur allir vegir færir.
Á mótunarskeiði hvers barns er það hafið yfir allan vafa í mínum huga að skátaheitið og skátalögin eru þau gildi sem gerir hvern og einn að betri einstakling. Með því móti náum við til sjávar frá því að vera ósnortin og tær vatnslind yfir í það að vera stórt fljót einstakra eiginleika sem glæða hafið stóra hafið af lífi. Lífi sem vert er að lifa, lífi fullu tilhlökkunar og hamingju.
Þegar við skátar förum með skátaheitið gerum við það að fúsum og frjálsum vilja. Við tökum sjálfir ákvörðun um að lofa því sem í valdi okkar stendur til þess að gera skyldu okkar. Skyldu okkar við lífið. Það er okkar að velja og taka ákvörðun um að sýna drengskap. Það er okkar að ákveða og finna gildi þess að hjálpa öðrum og sýna náungakærleik. Það er okkar val að vera glaðvær þegar við göngum til okkar daglegu verka. Það er með hegðun okkar sem við öðlumst traust og virðingu samfélags okkar. Það er með framkomu okkar sem annað fólk ber virðingu fyrir okkur og við öðlumst traust vegna auðsýndrar tillitsemi og heiðarleika. Það er svo sannarlega okkar val að fara vel með náttúruna, sýna henni virðingu og koma fram við hana eins og hún sé barnið okkar. Það er okkar val í lífinu að fara vel með, vera nýtin og bera virðingu fyrir verðmætum. Það er aðeins þannig sem við öðlumst virðingu annarra og það er aðeins þannig sem við sjálf getum borið virðingu fyrir okkur sjálfum. Það hefur veitt mér óendanlega mikla gleði og hamingju að hafa tekið þátt í skátastarfi og átt þess kost að kynnast boðskap BP. Það er jafnframt óbilandi trú mín að skátahreyfingin hafi gert lífið á jörðinni fegurra og betra. Skátastarfið í mínum huga er þó bara rétt hafið því sem betur fer koma stöðugt nýjar kynslóðir barna í heiminn sem þrá hamingjusamt líf. Ef við getum lagt lóð á vogarskálarnar þá munum við gera það með brosi á vör.
Hugvekja þessi er hluti Gilwell verkefnis míns og flutti ég hana við vígslu Gilwell skáta að Úlfljótsvatni.
Bergur Ólafsson
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.3.2009 | 15:57
Fer í leyfi frá sveitarstjórn
Úr bæjarstjórn í dag...
Forseti,
Ágætu bæjarfulltrúar
Ég kveð mér hljóðs undir 6 lið dagskrár, Ráð og nefndir.
Í ljósi þess að ég hef hafið framhaldsnám í stjórnun við BI í Noregi og vegna fjarveru tengdu námi og starfi, sé ég ekki fram á að geta sinnt skyldum mínum eins og kröfur eru gerðar um skv. erindisbréfi og lögum um stjórn sveitarfélagsins.
Ég óska ég hér með eftir við bæjarstjórn að fá veitt leyfi frá störfum sveitarstjórnar næstu í 12 mánuði með vísan í 34 gr. sveitarstjórnalaga.
Virðingarfyllst,
Bergur Ólafsson
15.2.2009 | 19:19
Að fljóta frítt með í strætó með stolnar piparkökur
Í Osló er herferð í gangi þar sem það fólk sem ,,sníkir" sér far í lestarnar og strætó taki nú upp betri hegðun og kaupi sér miða. Stúdentar og gamalmenni greiða eitt lágt gjald á meðan þeir sem eru á besta aldri í fullri vinnu borga sinn taxta. Sýndar eru afbakaðar myndir af þeim sem eru að snýkja sér far því þeir líta oftast mjög flóttalega út, líti stöðugt til hægri og vinstri, einstaka svitaperla rennur niður andlitið því verðirnir sem kanna hvort allir hafi greitt í lestina geta nefnilega ,,dukkað" upp hvenær sem er og spurt... ertu með miða? Refsingin er niðurlæging á staðnum og sekt sem er miklu hærri en gjaldið í strætó.
Það er nefnilega þannig með okkur mannfólkið að í okkur flestum leynist samviska sem segir okkur að bannað sé að stela og flest okkar reyna að fara eftir gildandi reglum. Við borgum skattana okkar og tökum þátt í sameiginlegum kostnaði samfélagsins.
Þorbjörn Egnar kenndi okkur álíka dæmisögu þegar hann sagði okkur að stolnar piparkökur bragðist ekki vel. Bara þær piparkökur sem eru heiðarlega fengnar, bragðast vel.
Nútíma sauðaþjófar
Í þessu samhengi hugsa ég til þeirra tuga eða jafnvel hundruða Íslendinga sem hafa stofnað leynifélög í skattaparadísum á borð við Tortola og á bresku jómfrúareyjunum í þeim eina tilgangi að þurfa ekki að borga skatta hér á landi. Þessir aðilar eru að mínu áliti að svindla undan skatti til þess eins að þurfa ekki að taka þátt í samneyslunni. Þessir aðilar eru að mínu áliti svikarar við samfélagið á sama hátt og sauðaþjófar til forna.
Þessi aðilar eru vonandi jafn flóttalegir á svipinn og þeir sem eru að svindla sér í norsku lestarnar því þeir vita að ,,vörðurinn" er á leiðinni og mun spyrja þá, ætlar þú ekki að borga skattana þína?
Þessir aðilar fá nefnilega sömu þjónustu og við hin sem byggjum þetta samfélag. Börnin þeirra ganga í sömu skóla og börnin okkar og ef þeir verða veikir þá fá þeir sama hagkvæma aðganginn að heilsugæslu og umönnun inná næsta spítala.
Ætli þessir aðilar séu með vont bragð í munninum eins og eftir stolnar piparkökur þegar þeir þiggja þjónustu hér á landi sem greidd er með peningum almennings á meðan peningarnir þeirra lifa sjálfstæðu lífi í kyrrahafinu.
Þetta fólk þarf ekki að ganga hokið og flóttalegt á svipinn lengur því það getur rölt sér inná næstu skrifstofu skattsins og gert grein fyrir því hvað þau eiga og boðist til að greiða það sanngjarna gjald sem við öll greiðum af tekjum okkar og eignum. Þá og ekki fyrr getur þetta fólk tekið þátt í að byggja upp nýtt Ísland þar sem krafist er heiðarleika, gegnsæi og samvinnu við uppbyggingu landsins.
Hver ætli verði fyrst (ur) ?
Félög skráð á Tortola eru 136 talsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)