Almenni Lífeyrissjóðurinn - rúin trausti ?

Ágæti sjóðfélagi,

Þannig hefst ávarp á yfirliti um sjóðsstöðu mína í Almenna lífeyrissjóðnum sem staðsett er á 4. hæðinni í húsnæði Íslandsbanka á Kirkjusandi.

Á yfirlitinu kemur fram að ávöxtun sjóðsins hafi verið mínus 24,3% á seinasta ári og mínus 2,2% þegar þeir hafa dreift ávöxtuninni á þrjú ár. Þetta þýðir í mínu tilfelli að þeim tókst að ræna af mér rúmum 2,3 milljónum króna á einu ári. Þá reikna ég ekki með að ef þeir hefðu rekið sjóðinn af ábyrgð og þekkingu hefði jafnvel mátt búast við jákvæðri ávöxtun en ekki tapi þannig að tap mitt er í raun meira en að ofan greinir. Þeir sjálfir reikna með um 3,5% ávöxtun til lengri tíma. Í mínum huga er þetta þjófnaður og gerandinn er glæpamaður.

Þegar haft er í huga hvers eðlis lífeyrissjóður er, er það með eindæmum hvernig stjórnendum og umsjónaraðilum þessa ,,Glitnis" sjóðs tókst að tapa svona miklu fé á jafn skömmum tíma. Það er ekki hægt að mínu áliti nema vegna þess að stjórnendur sjóðsins hljóta að vera gersamlega vanhæfir til að stjórna sjóðnum. Þeir hafa að mínu áliti valið glæfralegar leiðir við fjárfestingar sínar og ekki gætt þess að lífeyrissjóður er langtímasparnaður sem leitar hámarksöryggis í stað hámarksáhættu. Lífeyrissjóður á ekki að vera spilavíti fyrir áhættufíkla í vafasömum guttaklúbbum.

Það er eiginlega grátlegt að sjá hverjir skrifa undir yfirlitið en þeir eru kallaðir ,,Ráðgjafar Almenna lífeyrissjóðsins."

Í ótrúlegu viðtali við sjálfan sig í sínu eigin fréttabréfi útskýrir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins að erlendir lífeyrissjóðir hafi einnig tapað fé og vitnar í bandarískt eignastýringarfyrirtæki með svipaða fjárfestinarstefnu og Almenni hefur. Þannig er komin skýring á því að hann hafi nú gert allt rétt og eins og annar ,,sambærilegur aðili".  Þessi útskýring ætti að fara í kennslubækur um vanhæfni stjórnenda og hve langt þeir geta seilst til að útskýra afglöp sín. Þetta minnir meira á innihaldslausan pólitískan frasa en ekki ábyrgan framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs.

Í sama fréttabréfi er sagt að Almenni lífeyrissjóðurinn sé traustur lífeyrissjóður sem hentar þeim sem geta valið lífeyrissjóð og vilja greiða viðbótariðgjöld til að auka ráðstöfunartekjur sínar á eftirlaunaárunum. Ég segi bara að fyrir 2,3 milljónir framreiknaðar í 20 ár,gæti ég farið í heimsreisu í marga mánuði, tryggt einhverjum verr settum skólavist eða haldið persónulega lífinu í tugum barna. Almenni lífeyrissjóðurinn er í mínum augum vanhæft glæpafyrirtæki sem fólk ætti að forðast eins og heitan eldinn á meðan núverandi stjórnendur sitja þar við völd.

Það er tekið fram í yfirlitinu að hafi maður einhverjar athugasemdir eigi maður að hafa samband við Íslandsbanka (ex. Glitni) eignastýringu. Ef margir stjórnmálamenn eru rúnir trausti þá er þeir eins og kórdrengir við hlið eignastýringardeildar (gamla) Glitnis. Ráðgjafar sem bjóða raunávöxtun á einu ári -34,9% eru menn sem geta ekki verið stoltir af vinnu sinni. Nema sá grunur minn reynist réttur að þeir hafi einfaldlega verið að vinna vinnuna sína, fjárfest í þeim hlutabréfum og skuldabréfum sem eigendur bankans skipuðu þeim að fjárfesta í.

Í gögnum Almenna lífeyrissjóðsins er ekki að finna trúverðugar skýringar á gríðarlegu tapi sjósðins, enda væntir maður kannski ekki trúverðugleika frá stjórnendum sjóðsins. Þeir eru í vörn, kunna ekki að skammast sín eða taka afleiðingum þess að tapa þúsundum milljóna fyrir fólki. 

Það er skýlaus krafa mín sem sjóðfélaga að stjórn og stjórnendur Almenna lífeyrissjóðsins segi tafarlaust af sér enda geta þeir ekki notið mikils trausts með öðrum eins vinnubrögðum. Þeir eru í mínum augum vanhæfir, ábyrgðarlausir og rúnir trausti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Heyr, heyr. Það er ótrúlegt að menn geti sett fjármuni sjóðfélaga í slíkar áhættur! Mér finnst að það þarf að endurskoða tilgang lífeyrissjóða, auka lýðræði í stjórnun og hafa strangt eftirlit með þeim. Ég er í sama sjóði og ég far fjúkandi vondur að sjá smettið á stjórn og forsvarsmönnum reynadi að telja okkur trú um að þetta hafi verið ekki svo slæmt. Veistu hvað við borgum stjórn og forstjóra í laun á ári?

Haraldur Haraldsson, 15.3.2009 kl. 23:29

2 identicon

Til hamingju með góðgerðarstarfsemina.  Þeir þurfa ekki að ná nema 48% ávöxtun á þessu ári til að komast á núllið - svo geta þeir bætt við verðtryggingu ársins og ávöxtunarkröfu.  Þetta er þá ekki nema ca. 60% sem þeir þurfa að græða á þessu ári, bara til að vera á pari við það sem þeir lofuðu í árbyrjun 2007.

Grátlegar staðreyndir.

Bragi (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband